- Nafn og tilgangur
-
Nafn félagsins er Þórduna - nemendafélag Verkmenntaskólans á Akureyri. Kennitala þess er 591192-2999. Lögheimili þess er við Hringteig 2 á Akureyri. Varnarþing þess er á Akureyri. Nemendafélag Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008.
-
Tilgangur félagsins er að vera málsvari nemenda út á við og gagnvart skólayfirvöldum ásamt því að stuðla að fjölbreyttu félagslífi og námi í VMA.
-
-
Réttindi og skyldur félagsmanna
-
Félagar eru allir þeir sem borga félagsgjöld og stunda nám við VMA.
-
Félagsmenn Þórdunu greiða í upphafi hverrar annar félagsgjöld sem áætluð eru af nemendaráði og viðburðastjóra í samstarfi við rekstrar- og fjármálastjóra og samþykkt af skólanefnd.
-
Hafi meðlimur Þórdunu brotið lög þess með framkomu sinni, hnekkt áliti félagsins og markmiðum verulega, skal honum hegnt með brottrekstri úr félaginu samkvæmt ákvörðun nemendaráðs. Úrskurður hennar er því aðeins gildur að minnsta kosti 4/5 stjórnar sé honum samþykkir. Nemendaráði er skylt að boða hinn brotlega á sinn fund og gefa honum kost á að tala máli sínu.
-
Þórduna sér um að afla afslátta fyrir félagsmenn og gefa út nemendafélagsskírteini að hausti sem jafnframt er afsláttarskírteini. Félagsmenn skulu alla jafna njóta sérkjara þegar kemur að viðburðum á vegum Þórdunu.
-
Nemendaráði ber að sjá til þess að lög félagsins séu aðgengileg fyrir félagsmenn og séu birt á heimasíðu Þórdunu.
-
-
Nemendaráð
-
Stjórn Þórdunu kallast nemendaráð og er kosið til eins árs í senn.
-
Nemendaráð fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda.
-
Nemendaráð er skipað eftirfarandi embættum Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, skemmtanastjóri, eignastjóri, kynningarfulltrúi, formaður hagsmunaráðs og nýnemafulltrúi. Auk þess er nemendaráði heimilt að óska eftir framboði í meðstjórnanda í samráði við skólameistara og viðburðarstjóra.
-
Verkaskipting í nemendaráði skal vera eftirfarandi:
-
Formaður skipuleggur og stjórnar fundum nemendafélagsins ásamt því að bera ábyrgð á öllu sem Þórduna framkvæmir. Hann skal hafa góða yfirsýn yfir félagslíf skólans hverju sinni og er jafnframt tengiliður stjórnar við skólayfirvöld, önnur nemendafélög og fjölmiðla. Formaður er áheyrnarfulltrúi í skólanefnd og situr fyrir hönd nemenda VMA aðalþing Sambands íslenskra framhaldsskólanema.
-
Varaformaður er staðgengill formanns og gegnir formannsstörfum í fjarveru hans. Þurfi formaður að segja starfi stöðu sinni lausri skal varaformaður gegna skyldum hans þar til nýr formaður hefur verið kjörinn eða skipaður af Þórdunu. Varaformaður er tengiliður nemendaráðs við undirfélög Þórdunu og klúbba. Hann og kynningarfulltrúi skulu sjá um að kynna klúbba skólans. Varaformaður er formaður lagabreytinganefndar.
-
Ritari færir fundargerðir stjórnar og hefur ásamt kynningarfulltrúa yfirumsjón með útgáfustarfsemi á vegum félagsins. Ritari, í samráði við stjórn, skrifar ársskýrslu um starf félagsins, sem kynnt er á aðalfundi og birt á heimasíðu Þórdunu. Ritari sér um útgáfu félagsskírteina.
-
Gjaldkeri annast fjárreiður félagsins, bókhald, fjárvörslu og ávöxtun fjár. Gjaldkera ber að hafa bókhald félagsins klárt til samþykkis á aðalfundi á vorönn. Gjaldkeri þarf að hafa náð 18 ára aldri við upphaf stjórnarsetu.
-
Skemmtanastjóri er formaður skemmtinefndar og hefur yfirumsjón með öllu skemmtanahaldi á vegum nemenda skólans og veitir árshátíðarnefnd forystu.
-
Formaður Tækniráðs er umsjónarmaður eigna og ber ábyrgð á tæknibúnaði ásamt uppsetningu og frágang á tæknibúnaði á viðburðum Þórdunu. Honum ber skylda til að halda eignaskrá Þórdunu.
-
Kynningarfulltrúi hefur umsjón með kynningarmálum Þórdunu, s.s. uppfærslu heimasíðu Þórdunu, auglýsingar á vegum Þórdunu, o.fl., í samstarfi við ritara. Kynningarfulltrúi ber ábyrgð á því að viðburðir Þórdunu séu auglýstir með góðum fyrirvara og að allir þeir styrktaraðilar sem Þórduna er með styrktarsamning við hverju sinni fái sitt einkennismerki inn á auglýsingarnar.
-
Formaður hagsmunaráðs stjórnar og boðar fundi í hagsmunaráði ásamt því að sitja í skólaráði. Formaður hagsmunaráðs situr fyrir hönd nemenda VMA aðalþing Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF). Formaður hagsmunaráðs er tengiliður nemenda við SÍF og skal kynna sér starfsemi og taka þátt í starfi þess eins og kostur er. Formaður hagsmunaráðs tryggir þáttöku fulltrúa nemenda VMA á aðalþingi SÍF.
-
Nýnemafulltrúi er fulltrúi nýnema í stjórn nemandaráðs og gætir þess að rödd þeirra heyrist. Hagsmunaráð sér um kosningu nýnemafulltrúa og er því heimilt í samráði við viðburðarstjóra að skipa tvo einstaklinga í embættið.
-
-
Stjórn Þórdunu skal í byrjun skólaárs sjá um að kynna fyrir nýnemum starfsemi félagsins ásamt því að taka þátt í og skipuleggja í samráði við skólastjórnendur nýnemaferð og nýnemahátíð.
-
Skólameistari boðar stjórn Þórdunu á skólafund í upphafi haustannar ár hvert.
-
Nemendaráð skal halda úti virkri heimasíðu og vera virkt á samfélagsmiðlum, þar sem uppfærðar eru reglulega fréttir úr félagslífinu auk annars efnis sem við á.
-
Nemendaráð skal kynna starfsemi sína og félagslíf VMA á grunnskólakynningum á vegum skólans.
-
Öllum þeim sem taka sæti í stjórn Þórdunu ber að sýna fullan trúnað í störfum sínum fyrir félagið og nemendur VMA. Skal sá trúnaður haldast eftir að viðkomandi lætur af störfum í stjórn Þórdunu. Þetta á einnig við um þá félagsmenn sem sitja í stjórnum undirfélaga, ráða, nefnda og klúbba Þórdunu.
-
-
Ráð og nefndir
-
Hagsmunaráð er skipað þremur fulltrúum. Ráðið er málsvari nemenda gagnvart skólastjórnendum og gætir hagsmuna nemenda við breytingar á skólastarfi. Hagsmunaráð beitir sér fyrir breytingum og umbótum á námslegum og félagslegum þáttum er snúa að nemendum. Nemendur geta leitað til ráðsins með hagsmunamál sín og ber hagsmunaráði að fara yfir erindi sem ráðinu berast. Formaður sér um að haldin sé fundagerðabók á fundum ráðsins. Tveir fulltrúar hagsmunaráðs sitja í skólaráði og skulu þeir starfa eftir reglum ráðsins og með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Hagsmunaráð fylgir eftir að skólastjórn og nemendafélagið fylgi jafnréttis- og öryggisstefnu skólans. Ráðið sér um framkvæmd og undirbúning kosninga á haustönn í embætti nýnemafulltrúa, í ritnefnd og skemmtinefnd í samráði við viðburðastjóra.
-
Ritnefnd. Kosin er ritnefnd í upphafi haustannar og skal hún sjá um útgáfu á skólablaðinu Mjölni. Í ritnefnd eru þrír fulltrúar nemenda og getur ritnefnd kallað til sín fleiri nemendur til að vinna að útgáfu Mjölnis. Skólablað er gefið út a.m.k. 1-2 á skólaárinu og Jón Krukkur eftir þörfum.
-
Skemmtinefnd. Nemendaráði er heimilt að skipa skemmtinefnd. . Skemmtanastjóri Þórdunu er formaður nefndarinnar. Skemmtinefnd hefur umsjón með öllum skemmtunum og ferðum á vegum Þórdunu í samstarfi við nemendaráð.
-
Þrymur - tónlistarráð. Í upphafi haustannar er óskað eftir tilnefningum úr hópi nemenda í ráðið. Nemendur í tónlistarráði skipta með sér verkum. Þrymur sér um tónlistarviðburði á vegum Þórdunu og vinnur með skemmtinefnd, leikfélagi og öðrum ráðum innan Þórdunu hvað varðar tónlistarflutning.
-
Stuttmyndafélagið Æsir. Í upphafi haustannar er óskað eftir tilnefningum úr hópi nemenda í ráðið. Nemendur í félaginu skipta með sér verkum. Æsir sér um stuttmyndagerð og gerir myndbönd á vegum Þórdunu.
-
Leikfélag VMA. Leikfélagið er skipað formanni, varaformanni, fjármálastjóra, markaðsstjóri og meðstjórnanda. Kosið er í þessi embætti að vori. Leikfélagið setur upp a.m.k. eina sýningu á skólaári í samráði við stjórn Þórdunu.
-
Nemendum innan skólans er heimilt að stofna klúbba innan Þórdunu og geta sótt ráðleggingar og stuðning til nemendaráðs. Klúbbar skulu starfa sjálfstætt, en lúta yfirstjórn nemendaráðs.
-
Klúbbum, ráðum og nefndum innan skólans er óheimilt að stofna til skuldbindinga í nafni Þórdunu nema með samþykki nemendaráðs.
-
Klúbbar skulu hafa virka stjórn, skipaða minnst þremur nemendum og skal formaður klúbbsins jafnframt vera ábyrgðarmaður hans.
-
Árshátíðarnefnd. Nemendaráði er heimilt að óska eftir umsóknum í árshátíðarnefnd til að sjá um skipulagningu og framkvæmd árshátíðarinnar í samráði við nemendaráð. Skemmtanastjóri Þórdunu er formaður nefndarinnar.
-
Tækniráð. Í upphafi haustannar er óskað eftir tilnefningum úr hópi nemenda í ráðið. Tækniráð sér um uppsetningu og frágang á tæknibúnaði á viðburðum Þórdunu. Ráðið aðstoðar einnig skemmtinefnd og árshátíðarnefnd við skipulag á tæknimálum viðburða Þórdunu.
-
-
Viðburðastjóri og aðrir starfsmenn VMA
-
Viðburðastjóri er ráðinn af skólameistara og vinnur í umboði hans. Hann er tengiliður Þórdunu við yfirstjórn skólans og aðra starfsmenn hans. Viðburðastjóri hefur umsjón með félagslífi nemenda og er nemendaráði til leiðbeiningar og ráðgjafar um félagslíf og skipulag þess á hverju skólaári.
-
Viðburðastjóri situr alla fundi stjórnar Þórdunu og fylgist með framgangi mála innan félagsins. Viðburðastjóri ásamt rekstrar- og fjármálastjóra skólans, í samráði við gjaldkera og formann nemendaráðs, hafa yfirumsjón með bókhaldi Þórdunu. Viðburðastjóri ásamt forvarnafulltrúa skólans fylgja því eftir að öll starfsemi innan félagsins lúti að lögum og reglum skólans, sem og lögum félagsins. Vísað er nánar um hlutverk viðburðastjóra í starfslýsingu hans.
-
Forvarnafulltrúi situr fundi nemendaráðs eftir þörfum. Hann vinnur með nemendafélaginu að fræðslu og eftirfylgni með forvörnum á viðburðum. Vísað er nánar um hlutverk forvarnafulltrúa í starfslýsingu hans.
-
Umsjónarmaður fasteigna vinnur í samvinnu við nemendaráð og viðburðastjóra að viðburðum sem haldnir eru innan skólans. Nemendaráð upplýsir umsjónarmann fasteigna um starfsáætlun skólaársins og lætur vita ef breytingar verða þar á.
-
-
Fundir á vegum Þórdunu
-
Aðalfundur skal haldinn í apríl ár hvert. Boða skal til fundarins með minnst viku fyrirvara á heimasíðu VMA og með tölvupósti til félagsmanna Þórdunu, í gegnum Innu.
-
Aðalfundur telst löglegur ef rétt er til hans boðað. Fundarstjóri ber upp lögmæti fundarins í upphafi fundar. Ef fundurinn er ekki lögmætur skal boða framhaldsfund innan viku og telst hann löglegur ef rétt er til hans boðað.
-
Rétt til fundarsetu og tillögurétt hafa allir félagar Þórdunu og þeir einir hafa atkvæðisrétt. Þá hafa viðburðastjóri, skólameistari og forvarnafulltrúi og þeir sem nemendaráð býður sérstaklega að sitja fundinn, tillögurétt.
-
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
-
Fundarsetning.
-
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
-
Skýrsla stjórnar.
-
Reikningar félagsins lagðir fram.
-
Umræður og afgreiðsla ársskýrslu og ársreikninga.
-
Kosning skoðunarmanna reikninga.
-
Lagabreytingar.
-
Önnur mál.
-
Fundarslit.
-
-
Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi. Þó öðlast lagabreytingar því aðeins gildi að þær hljóti samþykki tveggja þriðju hluta þeirra sem atkvæði greiða, enda taki fullur helmingur þeirra, sem á fundi eru, þátt í atkvæðagreiðslunni. Tillögur til breytinga á lögum félagsins, skulu sendar nemendaráði þremur dögum fyrir boðaðan aðalfund ásamt nafni flutningsmanna. Nemendaráð skal auglýsa tillögur um lagabreytingar með minnst tveggja daga fyrirvara fyrir boðaðan fund.
-
Á félagsfundi er hægt að leggja fram tillögu um að boða til auka aðalfundar. Slík tillaga skal koma fram í fundarboði og sé hún samþykkt á fundinum er stjórn Þórdunu skylt að boða auka aðalfund eins fljótt og mögulegt er. Stjórn Þórdunu hefur einnig sjálfstæða heimild til að boða til auka aðalfundar. Á auka aðalfundi er ekki skylt að taka á dagskrá alla liði sem lög Þórdunu segja fyrir um á aðalfundi. Atkvæðagreiðsla og meðferð lagabreytinga á auka aðalfundi skal fara eftir grein 6.5 í lögum félagsins.
-
Nemendaráðsfundir skulu haldnir ásamt viðburðastjóra a.m.k. einu sinni í viku á starfstíma skóla og skal formaður boða til fundarins. Forvarnafulltrúa er heimilt að sitja fundi ráðsins þegar við á.
-
Atkvæðisrétt á nemendaráðsfundum hafa kosnir fulltrúar nemendaráðs. Skiptist atkvæði jafnt veltur ákvörðun á atkvæði þess stjórnarmeðlims sem hefur umsjón með viðkomandi máli. Viðburðastjóri og forvarnafulltrúi hafa tillögurétt á fundunum, nema þegar um fjárveitingar er að ræða, þá öðlast þeir atkvæðisrétt.
-
Allar ákvarðanir nemendaráðsfundar skal bera undir atkvæði og skoðast þær aðeins samþykktar ef þær hljóta meirihluta atkvæða. Ákvarðanir sem teknar eru á fundi nemendaráðs teljast aðeins gildar ef meirihluti nemendaráðs situr fundinn. Halda skal fundagerðabók á öllum fundum nemendaráðs.
-
Fundur með skólameistara. Nemendaráð skal funda með skólameistara, eða fulltrúa hans, a.m.k. tvisvar á önn. Þar skal skólameistara kynnt þau málefni sem efst eru á baugi og þau mál rædd sem báðum aðilum þykir þörf á. Starfsáætlun næsta skólaárs skal kynna fyrir skólameistara í lok vorannar og upplýsa hann ef um breytingar verða á viðburðum og starfsáætlun. Tillögur að lagabreytingum skal tilkynna skólameistara áður en aðalfundur er haldinn.
-
Almennur félagafundur. Nemendaráð getur boðað til almenns félagafundar með minnst sólarhrings fyrirvara. Skal hann vera auglýstur á heimasíðu og á samfélagsmiðlum. Óski a.m.k. 10% Þórdunu félaga eftir félagafundi er nemendaráði skylt að halda hann innan viku frá því að beiðni berst. Óskir um félagsfund skulu berast stjórn Þórdunu skriflega auk þess sem tilgreina þarf fundarefni.
-
-
Kosningar
-
Kosið er í embætti nemendafélagsins í almennum kosningum sem skulu haldnar í síðasta lagi tveimur vikum fyrir kennslulok að vori.
-
Kjörgengi og kosningabærir til embætta félagsins eru allir félagsmenn með takmörkunum laga þessara.
-
Einfaldur meirihluti ræður kosningu í embætti. Ef aðeins einn aðili býður sig fram í tiltekið embætti verður hann að hljóta að minnsta kosti 50% greiddra atkvæða.
-
Nemendaráð skipar þriggja manna kjörstjórn mánuði fyrir kosningar. Samþykki viðburðastjóra þarf fyrir skipan kjörstjórnar og eru meðlimir í kjörstjórn ekki kjörgengir í embætti til stjórnar. Kjörstjórn setur sér starfsreglur og sér um framkvæmd kosninga til stjórnar Þórdunu. Kjörstjórn hefur heimild til að ákveða hvort kosningar fari fram með rafrænum hætti og hefur samráð við skólastjórnendur um framkvæmd kosninga.
-
Kjörstjórn auglýsir eftir framboðum til nemendaráðs eigi síðar en tveimur vikum áður en framboðsfrestur rennur út. Kjördagur er öllu jafna þremur dögum eftir að framboðsfrestur rennur út. Birta skal reglur um kosningar til stjórnar Þórdunu opinberlega um leið og auglýst er eftir framboðum.
-
Frambjóðendur skulu hafa tilkynnt skriflega framboð sitt til kjörstjórnar eigi síðar en þremur virkum dögum fyrir kjördag, ella telst framboð viðkomandi ógilt. Sami aðili má ekki bjóða sig fram til eða gegna fleiri en einu embætti í senn innan nemendaráðs.
-
Þegar framboðsfrestur er útrunninn skal kjörstjórn boða til fundar með öllum frambjóðendum og viðburðastjóra í síðasta lagi tveimur virkum dögum fyrir kosningar þar sem farið er yfir framkvæmd kosninga og kosningabaráttuna. Á þeim fundi skulu frambjóðendur lýsa yfir vanhæfi á aðila innan kjörstjórnar sé ástæða til vegna tengsla aðila í kjörstjórn við aðila sem eru í framboði. Viðburðarstjóri tekur afstöðu til þess hvort um vanhæfi sé að ræða.
-
Ef frambjóðandi óskar eftir því á fundi með kjörstjórn að breyta framboði sínu skal það heimilt, samþykki meirihluti frambjóðenda, sem á fundinum eru, breytinguna.
-
Viðburðastjóri leggur fram lista yfir frambjóðendur fyrir skólastjórnendur sem meta hæfi frambjóðenda m.a.út frá mætingum og/eða námsferli. Skólayfirvöld hafa fullan rétt til að hafna framboðum séu til þess málefnalegar ástæður. Telji kjörstjórn og/eða viðburðastjóri frambjóðanda af einhverjum orsökum vera vanhæfan til setu í nemendaráði ber þeim að leggja tillögu um höfnun framboðs fyrir skólayfirvöld til samþykkis. Frambjóðanda skal gerð grein fyrir meintu vanhæfi og ástæðum þess og honum gefið færi á að tala máli sínu fyrir skólayfirvöldum.
-
Frambjóðanda er heimilt að kynna framboð sitt, en ber að gæta fyllsta velsæmis. Kjörstjórn, nemendaráð og viðburðastjóri áskilja sér rétt til að fjarlægja eða taka fyrir áróður sem þykir misbjóða þeim sem um skólann fara eða sem gengur á svig við lög og reglur skólans og Þórdunu.
-
Frambjóðendum er óheimilt að nota aðstöðu og efni nemendaráðs til auglýsingagerðar eða áróðurs.
-
Kjörstjórn er skylt að kynna öll framboð jafnt og skal slíkt gert á upplýsingatjaldi í Gryfjunni og/eða með framboðsfundi á vegum nemendaráðs.
-
Kosningaáróður á kjörstað er óheimill. Kjörstjórn sér um að allar auglýsingar séu fjarlægðar úr húsum og af lóð skólans áður en skóli hefst á kjördag.
-
Frambjóðendum, eða fulltrúum þeirra, er heimilt að vera við talningu atkvæða í samráði við kjörstjórn.
-
Nýtt nemendaráð skal taka við hlutverki sínu viku eftir að úrslit hafa verið birt og starfa í samvinnu við eldra nemendaráð til lok skólaárs.
-
Takist ekki að skipa í öll embætti í nemendaráði í kosningum skal nemendaráð ásamt viðburðastjóra leita til frambjóðenda sem ekki náðu kjöri í aðrar stöður eða til annarra félagsmanna, um að taka að sér þær stöður sem ekki hefur verið skipað í.
-
Verði tveir eða fleiri efstir og jafnir í kosningum Þórdunu skal hlutkesti látið ráða um hver nær kosningu.
-
Nemendaráð skal birta niðurstöðu kosninga í Gryfjunni í síðasta lagi á hádegi daginn eftir kosningar og á heimasíðu sinni strax í kjölfarið.
-
Láti meðlimur nemendaráðs af störfum fyrir lok kjörtímabils síns, skal auglýsa eftir framboði innan viku frá brotthvarfi viðkomandi. Framboð skulu kynnt á heimasíðu Þórdunu, á samfélagsmiðlum og í Gryfju. Framboðsfrestur er fimm dagar og ef fer fram kosning skal nemendaráð sinna starfi kjörstjórnar. Ef enginn býður sig fram skal nemendaráð í samráði við viðburðastjóra skipa í stöðuna. Nemendaráð getur tekið að sér verkefni viðkomandi nemendaráðsfulltrúa ef stutt er eftir af skólaárinu og engir stórir viðburðir eftir.
-
Vanræki meðlimur nemendaráðs skyldur sínar, getur meirihluti nemendaráðs og/eða viðburðastjóri lýst á hann vantrausti. Sá sem vantrauststillagan er sett fram gegn getur farið fram á að brottreksturinn verði borinn undir atkvæðagreiðslu til synjunar og hefur til þess tvo virka daga frá því vantraust kemur fram. Til að synjun teljist gild þarf 2/3 hluta atkvæða. Leggi nefndur aðili ekki fram beiðni þess efnis innan tveggja daga eða ef synjun er felld í kosningum stendur ákvörðun nemendaráðs og/eða viðburðastjóra og viðkomandi aðili víkur þegar sæti í nemendaráði.
-
-
Fjármál Þórdunu
-
Félagsgjöldum skal eingöngu varið til félagsstarfs á vegum nemenda skólans. Félagsgjöld ásamt öllum ágóða af viðburðum og verkefnum á vegum Þórdunu renna í sjóð Þórdunu.
-
Allar tekjur og gjöld skulu fara um útgjaldareikning Þórdunu, sem er í umsjón gjaldkera nemendaráðs og skrifstofu skólans í umboði skólameistara. Formaður hefur aðgang að reikningi Þórdunu.
-
Endurgreiðslur félagsgjalda eru eingöngu inntar af hendi tvær fyrstu vikur hverrar annar.
-
Þórdunu er heimilt að veita klúbbum styrki til að efla starfsemi þeirra. Styrkfjárhæð er í höndum nemendaráðs og skulu upphæðir fara eftir fjárhagslegri stöðu félagsins á hverjum tíma. Auglýsa skal í upphafi haustannar styrkfjárhæð, fresti til að sækja um, hvernig sótt er um og í styrkumsókn þarf að koma fram markmið verkefnis og fyrir hverja verkefnið er. Nemendaráð getur hafnað ófullnægjandi umsóknum. Óheimilt er að veita styrki til einstaklinga og verkefna sem eru vegna námsferða eða áfanga innan skólans.
-
Ráðum og nefndum innan skólans er óheimilt að stofna til skuldbindinga í nafni Þórdunu nema með samþykki nemendaráðs. Allar fjárveitingar af reikningi Þórdunu skulu samþykktar og bókaðar á nemendaráðsfundi, og hefur viðburðastjóri atkvæðisrétt í slíkum málum.
-
Nefndum, ráðum, félögum og klúbbum sem heyra undir Þórdunu er gert skylt að gera fjárhagsáætlun vegna allra viðburða og bera undir nemendaráð með a.m.k.viku fyrirvara.
-
Bókhald og reikninga Þórdunu ber að skoða árlega af skoðunarmönnum reikninga. Reikningsárið er almanaksárið.
-
Allar eignir félagsins, hvort sem þær eru í umsjá stjórnar eða einstakra klúbba, eru sameign félagsins. Lán á eignum félagsins eru einungis leyfð hafi þau verið samþykkt á fundi nemendaráðs, í samráði við viðburðarstjóra og séu skráð.
-