1. ALMENN ÁKVÆÐI

1.1 Nafn félagsins er Þórduna - nemendafélag Verkmenntaskólans á Akureyri. Kennitala þess er 591192-2999. Lögheimili þess er í húsnæði Verkmenntaskólans á Akureyri við Hringteig 2 á Akureyri. Varnarþing þess er á Akureyri.

1.2. Markmið félagsins eru:

a) Að vera málsvari nemenda út á við og gagnvart skólayfirvöldum.

b) Að stuðla að fjölbreyttu félagslífi og námi í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

 

2. UM RÉTTINDI OG SKYLDUR FÉLAGSMANNA

2.1. Félagar eru allir þeir sem borga félagsgjöld og stunda nám við Verkmenntaskólann á Akureyri.

2.2. Félagsmenn í Þórdunu greiða í upphafi hverrar annar félagsgjöld sem áætluð eru af nemendaráði og félagsmálafulltrúum í samstarfi við skrifstofustjóra og samþykkt af skólanefnd.

2.3. Allir skráðir félagsmenn eiga rétt á eftirfarandi:

a) Kjörgengi í trúnaðar- og stjórnunarstöður félagsins (sjá þó liði 3.4.1-3.5 og 3.17).

b) Atkvæðisrétt í kosningum félagsins og atkvæðis- og tillögurétt á aðalfundum félagsins.

2.4. Allir félagsmenn skulu lúta settum lögum félagsins og fundarsamþykktum.

2.5. Félagsmaður hefur fyrirgert rétti sínum til aðildar að Þórdunu ef hann brýtur lög félagsins og/eða samþykktir þess eða kýs að skrá sig úr félaginu.

2.6. Félagsmenn hafa þátttökurétt á öll mót, keppnir og skemmtanir sem félagið stendur fyrir. Félagsmenn skulu alla jafna njóta sérkjara þegar kemur að viðburðum á vegum Þórdunu.

 

3. NEMENDARÁÐ

3.1. Stjórn Þórdunu kallast Nemendaráð og er það kosið til eins árs í senn, í kosningum á vorönn.

3.2. Nemendaráð fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda.

3.3. Nemendaráð er skipað 7 nemendum. Þeir skipa eftirfarandi embætti: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari, skemmtanastjóri, kynningarfulltrúi og eignastjóri.

3.4. Verkaskipting í nemendaráði skal vera eftirfarandi:

 

a) Formaður kemur fram sem fulltrúi nemenda utan skóla sem innan og situr fyrir hönd nemenda í skólanefnd. Einnig er hann fulltrúi Þórdunu í samskiptum við nemendaráð og félög annarra skóla. Formaður ásamt skólaráðsfulltrúa er áheyrnarfulltrúi nemenda í skólastjórn og skólanefnd. Formaður ber ábyrgð á daglegum rekstri Þórdunu.

b) Varaformaður er staðgengill formanns og gegnir formannsstörfum í fjarveru formanns. Þurfi formaður að segja starfi stöðu sinni lausri skal varaformaður gegna skyldum hans þar til nýr formaður hefur verið kjörinn eða skipaður af Þórdunu (sjá gr. 3.7 og 8.14.1.). Varaformaður er tengiliður Nemendaráðs við undirfélög Þórdunu og klúbba, og gegnir sem slíkur formennsku í Klúbbaráði Þórdunu (gr. 4.3). Hann og kynningarfulltrúi skulu sjá um að kynna klúbba skólans í samráði við Klúbbaráð.

c) Ritari færir fundargerðir stjórnar, annast bréfaskriftir, skjalavörslu og hefur ásamt kynningarfulltrúa yfirumsjón með útgáfustarfsemi á vegum félagsins. Hann, ásamt kynningarfulltrúa, sér um rekstur á heimasíðu Þórdunu og aðra útgáfustarfsemi á vegum félagsins (fyrir utan Skólablaðið). Árskýrsla um starf félagsins, sem kynnt er á aðalfundi, skal í höndum ritara í samráði við formann og varaformann. Ritari Þórdunu skal halda utan um allar þær auglýsingar sem að sendar eru út í nafni Þórdunu.

d) Gjaldkeri annast fjárreiður félagsins, bókhald, fjárvörslu og ávöxtun fjár. Hann skal búa yfir bókhaldsþekkingu. Gjaldkera ber að hafa bókhald félagsins klárt til samþykkis á aðalfundi á vorönn.

e) Skemmtanastjóri er formaður skemmtinefndar og hefur yfirumsjón með öllu skemmtanahaldi á vegum nemenda skólans og veitir árshátíðarnefnd forystu.

f) Eignastjóri er umsjónarmaður eigna og sér um tæki og tól í eigu Þórdunu, er þar með talinn allur búnaður í Gryfjunni. Honum ber skylda til að halda eignaskrá Þórdunu og klúbba sem starfa innan veggja skólans, og hefur hann einn útláns- eða leigurétt á eignum félagsins. Hann er tengiliður tæknimanna við Nemendaráð og skal hann aðstoða aðra í nemendaráði.

g) Kynningarfulltrúi hefur umsjón með kynningarmálum Nemendaráðs, s.s. uppfærslu heimasíðu Þórdunu, auglýsingar á vegum Þórdunu, o.fl. , í samstarfi við ritara. Upplýsinga- og kynningarfulltrúi ber ábyrgð á því að viðburðir Þórdunu séu auglýstir með góðum fyrirvara, að þær upplýsingar sem þar koma fram séu réttar, og að allir þeir styrktaraðilar sem Þórduna er með styrktarsamning við hverju sinni fái sitt einkennismerki inn á auglýsingarnar.

3.5. Reynt skal að tryggja eftir fremsta megni að í nemendaráði sé í það minnsta einn nemandi af iðn –og starfsmenntabrautum skólans.

3.6. Láti meðlimur nemendaráðs af störfum fyrir lok kjörtímabils síns, skal auglýsa eftir framboði innan viku frá brotthvarfi viðkomandi meðlims. (sjá lið 8.14.1)

3.7. Vanræki meðlimur ráðs/nefndar eða nemendaráðs skyldur sínar, getur meirihluti nemendaráð og/eða félagsmálafulltrúar lýst á hann vantrausti ef þurfa þykir. Sá sem vantrauststillagan er sett fram gegn getur farið fram á að brottreksturinn verði borinn undir atkvæðagreiðslu til synjunar og hefur til þess tvo daga frá brottvikningu. Til að synjun teljist gild þarf 2/3 hluta atkvæða. Leggi nefndur aðili ekki fram beiðni þess efnis innan tveggja daga eða ef synjun er felld í kosningum stendur ákvörðun nemendaráðs og/eða félagsmálafulltrúa og viðkomandi aðili víkur þegar sæti í Nemendaráði. Um eftirmann brottrekins aðila gildir liður 8.14.1 í tilviki nemendaráðs en sértækar reglugerðir um nefndir og ráð.

3.8. Nemendaráð boðar til almenns félagafundar eftir því sem þurfa þykir. Óski a.m.k. 10% Þórdunu-félaga eftir félagafundi er Nemendaráði skylt að halda hann innan tveggja vikna frá því að beiðni berst.

3.9. Nemendaráði ber að halda kynningarfund í upphafi hverrar annar þar sem stefnumál eru kynnt nemendum og helstu dagskrárliðir hverrar annar kynntir. Þessi fundur getur verið samfara nýnemafundi (sjá 3.13).

3.10. Nemendaráði ber að gefa út félagsskírteini til handa félagsmönnum sínum á hverri haustönn sem gilda út skólaárið, að auki skal gefa út skírteini handa nýnemum eða endurinnrituðum nemum á vorönn. Félagsskírteini gilda jafnframt sem afsláttarkort. Umsjón með útgáfu félagsskírteina hefur ritari.

3.11. Nemendaráði er skylt að halda veglega árshátíð á vorönn auk þess sem yfirumsjón með skipulagningu Opinna daga er í höndum þess. Þá er hin árlega Söngkeppni VMA einn fastra liða sem nemendaráði er skylt að sjá um á vorönn hverri. Nýnemahátíð að hausti er einnig á ábyrgð Þórdunu.

3.12. Nemendaráð skal halda úti virkri heimasíðu á vefsvæði nemendafélagsins, þar sem uppfærðar eru reglulega fréttir úr félagslífinu auk annars efnis sem við á.

3.13. Nemendaráð stendur fyrir nýnemafundi ekki seinna en í fjórðu viku haustannar þar sem nýnemum er kynnt starfsemi nemendafélags auk félaga, nefnda, ráða og klúbba innan skólans.

3.14. Nemendaráð skal kynna starfsemi sína og félagslíf VMA á grunnskólakynningum á vegum skólans.

3.15. Nemendaráði er skylt að skipa 5 manna kjörstjórn í síðasta lagi fimm vikum fyrir kosningar.

3.16. Öllum þeim sem að taka sæti í stjórn Þórdunu ber að sýna fullan trúnað í störfum sínum þegar við á, t.1.m. í erfiðum og persónulegum málum sem koma inn á borð Þórdunu í heild eða í þeirra embættisrekstri. Skal sá trúnaður haldast eftir að viðkomandi lætur af störfum í stjórn Þórdunu. Þetta á einnig við um þá félagsmenn sem að sitja í stjórnum undirfélaga, -ráða og -klúbba Þórdunu.

 

4.    RÁÐ OG NEFNDIR

4.1. Undir nemendaráð Þórdunu heyra þrjár aðrar nefndir og ráð, hagsmunaráð, ritnefnd og skemmtinefnd.

4.2. Ráðum og nefndum innan skólans er óheimilt að stofna til skuldbindinga í nafni Þórdunu nema með samþykki nemendaráðs.

4.3. Hagsmunaráð sér um að gæta hagsmuna allra nemenda gagnvart nemendaráði og skólastjórn.

4.3.1. Tveir fulltrúar hagsmunaráðs þurfa að vera viðstaddir alla fundi nemendaráðsins og sér til þess að hagsmunir nemenda séu alltaf í fyrirrúmi og að þeim sé ekki mismunað.

4.3.2. Hagsmunaráð berst fyrir hagsmunum nemenda gagnvart skólastjórnendum og sér til þess að hagsmunir nemenda glatist ekki þegar breytingar verða. Hagsmunaráð berst einnig fyrir breytingum í þágu nemenda, bæði félagslega og námslega séð.

4.3.3. Hagsmunaráð á einnig að sjá til þess að bæði skólastjórn og nemendafélagið fylgi jafnréttisstefnu skólans.

4.3.4. Á fundum hagsmunaráðs skal farið yfir öll hagsmunamál og tillögur sem fulltrúum þess hafa borist.

4.3.5. Brjóti nemandi innan nemendaráðs lög Þórdunu skal Hagsmunaráð sjá til þess að sá hinn sami hljóti viðeigandi refsingu.

4.3.6. Hagsmunaráð skal sjá til þess að endurskoða lög þessi á hverju ári og leggja fram tilllögu til breytinga teljist það nauðsynlegt.

4.6. Ritnefnd er skipuð á vorönn eftir kosningar og skal hún starfa fram á vor og sjá um útgáfu á skólablaðinu Mjölni.

4.6.1. Skólablaðið Mjölnir skal koma út tvisvar á önn og skal nemendaráð skipa ritstjóra, sem, ásamt fulltrúa nemendaráðs og félagsmálafulltrúa, skipa fjóra meðlimi til viðbótar í nefndina.

4.7. Kosið skal í skemmtinefnd á haustönn en formaður hennar er valinn af nemendaráði. Fulltrúar nefndarinnar skulu vera fimm. Skemmtinefnd hefur umsjón með öllum skemmtunum og ferðum á vegum Þórdunu í samstarfi við nemendaráð.

4.8. Ef meira en helmingur stjórnarmeðlima einhvers félags eða nefndar hafa sagt upp störfum þá skal nemendaráð beitar sér tafarlaust fyrir endurnýjun í viðkomandi félagi, og skal lágmarksfjölda stjórnarmeðlima náð innan viku frá afsögn fyrri meðlima

4.9. Nemendur þurfa að sækja um til þess að komast í nefndir og eru þeir hæfustu ráðnir af nemendaráði í lok vorannar.

4.9.1. Strax eftir kosningar er auglýst eftir formanni í undirnefndirnar þar sem nemendaráðið fer yfir listann ásamt félagsmálafulltrúa og taka hvern umsækenda í viðtal og þegar viðtölum lýkur er einn umsækjandi valinn í stöðuna sem viðkomandi sótti um að komast í.

4.9.2. Í það minnsta einn fulltrúi nemendaráðs, ásamt formanni viðkomandi nefndar og félagsmálafulltrúa, fara yfir umsækendur í nefndirnar og velja hæfustu einstaklingana.

 

5. FÉLAGSMÁLAFULLTRÚAR

5.1. Félagsmálafulltrúar eru tveir starfsmenn skólans, ráðnir af stjórnendum skólans, til þess að koma að málefnum Þórdunu og vera tengiliðir félagsins við yfirstjórn skólans og aðra starfsmenn hans.

5.2. Hlutverk félagsmálafulltrúa er að sitja alla fundi stjórnar Þórdunu, auk funda með yfirstjórn skólans, og fylgjast með framgangi mála innan félagsins. Félagsmálafulltrúar, í samráði við gjaldkera og formann nemendaráðs, hafa yfirumsjón með bókhaldi. Félagsmálafulltrúar fylgja því eftir að öll starfsemi innan félagsins lúti að lögum og reglum skólans, sem og lögum félagsins.

 

6. KLÚBBAR

6.1. Klúbbum, ráðum og nefndum innan skólans er óheimilt að stofna til skuldbindinga í nafni Þórdunu nema með samþykki nemendaráðs.

6.2. Klúbbar skulu hafa virka stjórn, skipaða minnst þremur nemendum og skal formaður klúbbsins jafnframt vera ábyrgðarmaður hans.

6.3. Klúbbar skulu starfa sjálfstætt, en lúta yfirstjórn nemendaráðs. Allar fjárskuldbindingar og stærri ákvörðunartökur eru háðar samþykki nemendaráðs.

 

7. FUNDIR Á VEGUM ÞÓRDUNU

7.1. Aðalfundur.

7.1.1. Aðalfundur skal haldinn í apríl ár hvert. Boða skal til fundarins með minnst viku fyrirvara á heimasíðu VMA eða með öðrum óyggjandi hætti.

7.1.2. Aðalfundur telst löglegur ef rétt er til hans boðað og á hann mæta minnst 10% meðlima Þórdunu. Ef fundurinn er ekki lögmætur skal boða framhaldsfund innan tveggja vikna og telst hann löglegur ef rétt er til hans boðað.

7.1.3. Félagsmálafulltrúar geta boðað til aðalfundar sjái þeir ástæðu til og skal fundarboð berast með minnst viku fyrirvara.

7.1.4. Rétt til fundarsetu og tillögurétt hafa allir félagar Þórdunu og þeir einir hafa atkvæðisrétt. Þá hafa félagsmálafulltrúar, og þeir sem nemendaráð býður sérstaklega að sitja fundinn, tillögurétt.

7.1.5. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

i. Fundarsetning.

ii. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

iii. Ritari leggur fram árskýrslu félagsins.

iv. Gjaldkeri leggur fram samþykkta ársreikninga félagsins.

v. Umræður og afgreiðsla ársskýrslu og ársreikninga.

vi. Önnur mál.

vii. Fundarslit.

 

7.2. Nemendaráðsfundir

7.2.1. Nemendaráð skal funda ásamt félagsmálafulltrúum a.m.k. einu sinni í viku og skal formaður boða til fundarins með óyggjandi hætti minnst sólarhring fyrir áætlaðan fundartíma.

7.2.2. Atkvæðisrétt á nemendaráðsfundum hafa kosnir fulltrúar nemendaráðs. Félagsmálafulltrúar hafa tillögurétt á fundunum, nema þegar um fjárveitingar er að ræða, þá öðlast þeir atkvæðisrétt.

7.2.3. Félagsmenn Þórdunu geta getur setið fundi nemendaráðs hafi þeir fengið til þess umboð nemendaráðs.

7.2.4. Allar ákvarðanir nemendaráðsfundar skal bera undir atkvæði og skoðast þær aðeins samþykktar ef þær hljóta meirihluta atkvæða.

7.2.5. Nemendaráðsfundur telst þá aðeins gildur ef meirihluti nemendaráðs Þórdunu situr fundinn.

 

7.3. Fundur með skólameistara

7.3.1. Nemendaráð skal funda með skólameistara, eða fulltrúa hans, a.m.k. tvisvar á önn. Getur þessi fundur einnig fallið undir hefðbundna nemendaráðsfundi Þórdunu. Þar skal skólameistara, eða fulltrúa hans, kynnt þau málefni sem efst eru á baugi og þau mál rædd sem báðum aðilum þykir þörf á. Málefnalisti skal liggja fyrir tveimur dögum áður en til fundar kemur.

7.4. Almennur félagafundur

7.4.1. Almennur félagafundur er fundur sem nemendaráðið getur boðað til og telst hann gildur ef til hans hefur verið boðað með óyggjandi hætti með minnst sólarhrings fyrirvara. Skal hann vera auglýstur á heimasíðu og Facebooksíðu Þórdunu.

7.4.2. Á almennum félagafundi verða tillögur til lagabreytinga bornar undir fundargesti hafi þær borist nemendaráðinu áður en boðað var til fundar og hafi það komið skýrt fram að lagabreytingar yrðu ræddar á fundinum.

7.4.3. Önnur mál á fundi skulu vera rædd, s.s. komandi tímar í félagslífi. Á þessum fundi geta fundargestir einnig komið með vanhæfistillögu á stjórn Þórdunu. Samþykkist sú tillaga neyðist nemendaráðið til þess að segja af sér og skal þá fylgja lögum nr. 8.14.2.

 

8. KOSNINGAR

8.1. Kosið er í embætti nemendafélagsins - sem eru eftirfarandi: formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari, skemmtanastjóri, eignastjóri kynningarfulltrúi og tveir hagsmunaráðsfulltrúar - í almennum kosningum sem skulu haldnar í síðasta lagi tveimur vikum fyrir kennslulok, þannig að nægur tími gefist fyrir fráfarandi nemendaráð til starfa með nýju nemendaráði.

8.2. Kjörgengi til nemendaráðs hafa allir þeir Þórdunufélagar sem náð hafa sjálfræðisaldri skv. gildandi landslögum, og hafa hreint sakavottorð. Frambjóðendur til Nemendaráðs geta þó óskað eftir undanþágu frá reglum um sjálfræðisaldur ef þeir uppfylla aldursskilyrðin fyrir árslok. Ekki má þó veita undanþágu frá þessum skilyrðum vegna framboða til formanns eða gjaldkera. Fyrrum stjórnarmaður sem áður hefur verið lýst vantrausti á er ekki kjörgengur nema kjörstjórn ákvarði annað.

8.3. Til að kosning sé gild skulu að minnsta kosti 30% Þórdunu-félaga greiða atkvæði. Ef ske kynni að aðeins einn frambjóðandi bjóði sig fram í tiltekið embætti verður hann að hljóta að minnsta kosti 50% greiddra atkvæða.

8.4. Nemendaráð skipar 5 manna kjörstjórn í upphafi vorannar, í síðasta lagi fimm vikum fyrir kjördag. Kjörstjórn setur sér starfsreglur og sér um framkvæmd kosninganna.

8.4.1. Samþykki félagsmálafulltrúa þarf fyrir skipan kjörstjórnar.

8.4.2. Meðlimir í kjörstjórn eru ekki kjörgengir í embætti.

8.5. Framboð til nemendaráðs

8.5.1. Kjörstjórn auglýsi eftir framboðum eigi síðar en mánuði fyrir kosningar.

8.5.2. Þá skal og birta kosningalög opinberlega um leið og auglýst er eftir framboðum.

8.5.3. Frambjóðendur skulu hafa tilkynnt skriflega framboð sitt til kjörstjórnar eigi síðar en 7 dögum fyrir kjördag, ella telst framboð viðkomandi ógilt.

8.5.4. Sami aðili má ekki bjóða sig fram til eða gegna fleiri en einu embætti í senn innan nemendaráðs (sjá þó lið 3.4.2).

8.5.5. Þegar framboðsfrestur er útrunninn skal kjörstjórn boða til fundar með öllum frambjóðendum og félagsmálafulltrúum í síðasta lagi þremur dögum fyrir kosningar. Þar skal frambjóðendum bent á helstu atriði kosningalaga er varða áróður, kjördag, talningu atkvæða og skipan nýs nemendaráðs.

8.5.6. Ef frambjóðandi óskar eftir því á fundi með kjörstjórn (sjá 8.5.5) að breyta framboði sínu skal það heimilt, samþykki meirihluti frambjóðenda, sem á fundinum eru, breytinguna.

8.6. Félagsmálafulltrúar leggja lista yfir frambjóðendur fyrir skólastjórnendur sem meta hæfi frambjóðenda út frá mætingum og/eða námsferli. Skólayfirvöld hafa fullan rétt til að hafna framboðum á þessum eða öðrum þeim forsendum sem þykja sanngjarnar, s.s vegna agabrota. Telji kjörstjórn og/eða félagsmálafulltrúar frambjóðanda af einhverjum orsökum vera vanhæfan til setu í nemendaráði ber þeim að leggja tillögu um höfnun framboðs fyrir skólayfirvöld til samþykkis. Frambjóðanda skal gerð grein fyrir meintu vanhæfi og ástæðum þess og honum gefið færi á að tala máli sínu fyrir skólayfirvöldum.

8.7. Kynning á framboðum

8.7.1. Frambjóðenda er heimilt að kynna framboð sitt, en ber að gæta fyllsta velsæmis. Kjörstjórn, nemendaráð og félagsmálafulltrúar áskilja sér rétt til að fjarlægja eða taka fyrir áróður sem þykir misbjóða þeim sem um skólann fara eða sem gengur á svig við lög og reglur skólans og Þórdunu.

8.7.2. Frambjóðendum er óheimilt að nota aðstöðu og efni nemendaráðs til auglýsingagerðar eða áróðurs.

8.7.3. Kjörstjórn er skylt að kynna öll framboð jafnt og skal slíkt gert á upplýsingatjaldi í Gryfjunni og/eða með framboðsfundi á vegum nemendaráðs á sama stað.

8.7.4. Kosningaáróður á kjörstað er óheimill. Allar auglýsingar skulu fjarlægðar úr húsum og af lóð skólans áður en skóli hefst á kjördag.

8.7.5. Ef frambjóðendur eru með hópa á netsvæðum tengda framboðum sínum er kjörstjórn og félagsmálafulltrúum óheimilt að vera skráðir í þá hópa.

8.7.6. Ef sýnt þykir að fulltrúi kjörstjórnar og frambjóðandi tengist einhverjum böndum sem gætu leitt til hagsmunaárekstra, skal téður fulltrúi kjörstjórnar víkja sæti.

8.8. Frambjóðendum, eða fulltrúum þeirra, er heimilt að vera við talningu atkvæða í samráði við kjörstjórn.

8.9. Nýtt nemendaráð skal hefja störf strax að kosningu lokinni og starfa í samvinnu við eldra nemendaráð til vors. Ákvarðanataka skal falin í hendur nýrri stjórn en eldri stjórn hafi atkvæðisrétt á nemendaráðsfundum fram að kennslulokum.

8.10. Takist ekki að skipa í öll embætti í nemendaráði í kosningum skal nemendaráð ásamt félagsmálafulltrúum leita til frambjóðenda sem ekki náðu kjöri í aðrar stöður um að taka að sér þær stöður sem ekki hefur verið skipað í.

8.11. Verði tveir eða fleiri efstir og jafnir í kosningum Þórdunu skal hlutkesti látið ráða um hver nær kosningu.

8.12. Ef auðir seðlar eru hlutfallslega fleiri en greidd atkvæði hæsta frambjóðanda nær hann ekki kjöri. Skal þá innan vikutíma auglýsa eftir nýjum framboðum og halda í framhaldi af því nýjar kosningar. Ef einhver frambjóðandi nær enn ekki kjöri skal stjórn nemendaráðs skipa í stöðuna.

8.13. Nemendaráð skal birta niðurstöðu kosninga í Gryfjunni í síðasta lagi á hádegi daginn eftir kosningar og á heimasíðu sinni strax í kjölfarið.

8.14. Brotthvarf ráða og nefnda eða einstakra meðlima.

8.14.1. Láti meðlimur nemendaráðs af störfum fyrir lok kjörtímabils síns, skal auglýsa eftir framboði innan viku frá brotthvarfi viðkomandi meðlims. Framboð skulu kynnt á heimasíðu Þórdunu og á tjaldi í Gryfju. Nemendaráð sinnir í slíkum tilfellum starfi kjörstjórnar. Skal nemendaráð einnig skipa í stöðuna.

8.14.2. Segi nemendaráð af sér fyrir lok kjörtímabils síns ber því að efna til kosninga áður en það lætur af störfum. Nemendaráð getur ekki látið af störfum fyrr en allar stöður í nýju Nemendaráði hafa verið fullskipaðar.

 

9. FJÁRMÁL ÞÓRDUNU

9.1. Félagsgjöldum skal eingöngu varið til félagsstarfs á vegum nemenda skólans.

9.2. Ásamt félagsgjöldum skal allur ágóði af atburðum á vegum Þórdunu renna í nemendasjóð.

9.3. Allar tekjur og gjöld skulu fara um útgjaldareikning Þórdunu, sem er í umsjón gjaldkera og hann hefur aðgang að ásamt formanni.

9.4. Endurgreiðslur félagsgjalda eru eingöngu inntar af hendi tvær fyrstu vikur hverrar annar.

9.5. Allar fjárveitingar af reikningi Þórdunu, ef frá eru taldar greiðslur reikninga vegna starfsemi, skulu samþykktar á nemendaráðsfundi, og hafa félagsmálafulltrúar atkvæðisrétt í slíkum málum.

9.6. Nefndum, ráðum, félögum og klúbbum sem heyra undir Þórdunu er gert skylt að gera lauslega fjárhagsáætlun vegna allra atburða og bera undir nemendaráð með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.

9.7. Ársreikningar félagsins skulu bornir undir félaga Þórdunu á aðalfundi til samþykkis.

9.8. Bókhald og reikninga Þórdunu ber að endurskoða árlega, skal það á ábyrgð fráfarandi stjórnar í lok skólaárs. Endurskoðuðu bókhaldi skal síðan skilað fyrir upphaf næsta skólaárs til nýs nemendaráðs.

 

10. UM LÖG FÉLAGSINS

10.1. Lögum félagsins má breyta á almennum félagafundi með 2/3 hluta atkvæða.

10.1.1. Lögum á þessum fundum má einungis breyta ef til hans er boðað með óyggjandi hætti og skýrt hafi verið að lagabreytingartillögur yrðu ræddar á fundinum.

10.2. Lagabreytingar eru á höndum nemendaráðs og skal það skipa fimm manna lagabreytinganefnd, en í henni mega aðeins setja meðlimir nefnda og ráða sem heyra undir Þórdunu og skal varaformaður Nemendaráðs sinna formennsku í nefndinni. Lagabreytinganefnd skal síðan setja fram tillögur á aðalfundi. Um lagabreytingar gildir að um þær skuli fjalla á lýðræðislegum grundvelli og af hlutleysi.

10.3. Nemendaráði er heimilt að setja reglugerðir í samræmi við þessi lög, en eingöngu á almennum félagafundum. Skulu slíkar reglugerðir kynntar á vef Þórdunu, www.thorduna.is

10.4. Nemendaráði ber að sjá til þess að lög félagsins séu ávallt í aðgengilegu formi fyrir félagsmenn.

10.5. Hagsmunaráð skal, ásamt félagsmálafulltrúum, hafa eftirlit með því að þessum lögum sé framfylgt.

10.6. Nemendaráð hefur leyfi til að lagfæra stafsetninga-, málfræði- og málnotkunarvillur sem og villur í tilvísunum sem leynst geta í lögum þessum. Nemendaráði er þó óheimilt að breyta lagagreinum það mikið að það hafi áhrif á inntak og merkingu þeirra, nema á almennum félagafundi.